Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 16. apríl 2014
Tilv.: FJR14030022/16.2.5

Efni: Kæra vegna ákvörðun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á frístundarheimili.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 6. apríl 2014, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 5. febrúar 2014. Í ákvörðun ríkisskattstjóra var endurgreiðsla skv. beiðni lækkuð úr kr. 460.769 í kr. 302.135 eða um kr. 158.634.

Málavextir og málsástæður
Þann 19. desember 2013 móttók ríkisskattstjóri beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu við endurbætur og viðhald frístundahúsnæðis að [X], […]. Ríkisskattstjóri tók ákvörðun í málinu þann 5. febrúar 2014 og lækkaði endurgreiðsla skv. beiðni úr kr. 460.769 í kr. 302.135 eða um kr. 158.634. Lækkunin var vegna sjö reikninga. Synjunin var rökstudd á þann veg að einn reikningurinn væri vegna vinnu stjórnanda vinnuvéla og var endurgreiðslu í því tilviki synjað. Á endurgreiðslubeiðni var vinnuliður ranglega færður sem of há fjárhæð vegna þriggja reikninga og var endurgreiðslufjárhæð lækkuð til samræmis við vinnulið skv. þeim reikningum. Loks var endurgreiðslu synjað vegna þriggja reikninga sem eingöngu innihéldu efnisliði.

Þann 6. mars sl. móttók ráðuneytið kæru yðar vegna framangreindrar ákvörðunar embættis ríkisskattstjóra um synjun endurgreiðslu virðisaukaskatts. Með kæru voru lagðir fram tveir reikningar. Annar er nr. 285, frá [A] og hinn nr. 1291 frá [B]. Í kæru kemur fram að reikningi nr. 285 frá [A] hafi verið hafnað á þeim forsendum að hann innihéldi eingöngu efnisliði sem að sögn kæranda er ekki rétt. Í kæru kemur einnig fram að reikningi nr. 1291 frá [B] hafi verið hafnað þar sem [B] rekur meðal annars útgerð gröfu. Með kæru fylgdi yfirlýsing um eðli þeirrar vinnu sem framkvæmd var. Loks er vísað til þess í kæru að í úrskurði ríkisskattstjóra sé vísað til reiknings nr. 1294 frá [B]. Enginn reikningur hafi verið lagður fram með því númeri og hljóti því að vera átt við reikning nr. 1291.

Ráðuneytið sendi kæruna til umsagnar ríkisskattstjóra með bréfi dagsettu 7. mars 2014. Umsögn ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 24. mars 2014. Í umsögn kemur m.a. fram að um misritun á reikningsnúmeri hafi verið að ræða í ákvörðun ríkisskattstjóra í tilviki reiknings nr. 1291 frá[B]. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að ranglega hafi verið vísað til reiknings nr. 1294 í stað reiknings nr. 1291. Þá segir einnig að framkomin yfirlýsing útgefanda reiknings nr. 1291 þess efnis að hann sé eingöngu vegna smíðavinnu verði þess valdandi að ríkisskattstjóri telji að fallast beri á endurgreiðslu skv. þeim reikningi.

Í umfjöllun ríkisskattstjóra um reikning nr. 285 kemur fram að einnig hafi verið um misritun að ræða í ákvörðun ríkisskattstjóra vegna þess reiknings en númer hans hafi ranglega verið tvítekið í ákvörðuninni. Í ákvörðun ríkisskattstjóra segi ranglega undir lið 5 að sá reikningur innihaldi eingöngu efnisliði. Hið rétta sé að hann sé annars vegar vegna sölu á vinnu við framkvæmdir að fjárhæð kr. 440.700 án vsk. og hins vegar sölu aksturs að fjárhæð kr. 182.000 án vsk. eða samtals kr. 622.700 án vsk (ath á reikningi er samtalan ranglega sögð vera kr. 662.700). Sótt hafi verið um endurgreiðslu af heildarupphæð reiknings þ.e. að meðtöldum virðisaukaskatti af seldum akstri. Engin heimild sé til að endurgreiða virðisaukaskatt af seldum akstri. Í lið 5 hefði átt að vísa til reiknings nr. 273 frá sama aðila en hann inniheldur eingöngu efnisliði.

Forsendur og niðurstaða
Um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds og endurbóta á frístundahúsnæði er fjallað í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV við sömu lög. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal m.a. endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað við nýbyggingu þess, viðhald eða endurbætur sem og af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við nýbyggingu, viðhald eða endurbætur þess háttar húsnæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga.

Um endurgreiðslurnar gildir einnig reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í 4. gr. hennar er að finna upptalningu í nokkrum liðum á þjónustu sem ekki telst endurgreiðsluhæf. Skv. 2. tölul. 4. gr. er vinna stjórnenda farandvinnuvéla og vinnuvéla, sem skráningarskyldar eru í vinnuvélaskrá, á byggingarstað ekki endurgreiðsluhæf.

Kæruefnið varðar tvo reikninga sem fjallað verður um hvorn fyrir sig.

Í fyrsta lagi er um að ræða reikning nr. 1291 frá [B]. Á reikningi kemur fram að hið selda er dagvinna og yfirvinna vélamanns, samtals kr. 139.744, þar af vsk. kr. 28.394. Með kæru fylgdi yfirlýsing frá útgefanda reikningsins, [B], þess efnis að vinnan sem fór fram við [X] hafi eingöngu verið smíðavinna vegna járnklæðningar á húsinu. Í ljósi framkominnar yfirlýsingar telur ráðuneytið að skilyrði séu til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þessa reiknings.

Í öðru lagi er um að ræða reikning nr. 285 frá [A]. Í ákvörðun ríkisskattstjóra er númer þessa reiknings tvítekið og í seinna skiptið er um misritun að ræða. Reikningur nr. 285 frá Breiðdal ehf. er tvískiptur þ.e. annars vegar er um að ræða útselda vinnu skv. fylgiseðli alls kr. 440.700, án vsk og hins vegar akstur, alls kr. 182.000 án vsk. Ríkisskattstjóri féllst á endurgreiðslu vegna útseldrar vinnu en hafnaði endurgreiðslu vegna útselds aksturs. Við framkvæmd endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna endurbóta og viðhalds hefur ætíð verið við það miðað að akstur flokkist ekki sem endurgreiðsluhæf þjónusta skv. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og ákvæði til bráðabirgða XV við sömu lög. Reikningur nr. 273 frá [A]., sem ranglega er sagður hafa númerið 285 í ákvörðun ríkisskattstjóra, er vegna efnis m.a. vegna kaupa á gleri, skrúfum og nöglum. Virðisaukaskattur vegna kaupa á efni fellur ekki undir framangreinda endurgreiðsluheimild.

Úrskurðarorð
Kæranda skulu endurgreiddar kr. 28.394 en að öðru leyti er úrskurður ríkisskattatjóra staðfestur.


Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum